Uppáhalds

Oft langar mann til að mæla með einhverju, deila því með öðrum hverju maður hefur mætur á, bjóða fólki að taka þátt í áhuganum og gleðinni með sér. Aðallega bókmenntum og ýmsum höfundum héðan og þaðan úr nútíð og fortíð. Það breytist auðvitað í tímans rás, en þessa stundina gæti ég til dæmis nefnt Susan Howe, W. G. Sebald, Chris Marker, Pétur Gunnarsson, Þórberg Þórðarson (alltaf), Sigfús Daðason, Jakobínu Sigurðardóttur, Ingeborg Bachmann, Walter Benjamin, Theodor Adorno, Bertolt Brecht, Anne Boyer, Alice Notley, M. NourbeSe Philip, Sean Bonney, Pier Paolo Pasolini, Victor Serge, Peter Weiss og fleiri og fleiri . . .

Eitt sérstakt áhugasvið er portúgölsk menning og saga.  Sá áhugi byrjaði, eins og gengur, með Fernando Pessoa og kompaníi en hefur ágerst með tímanum af persónulegum ástæðum. Núorðið beinist áhuginn að fleiri rithöfundum og skáldum á borð við Antonio Lobo Antunes og José Saramago, kvikmyndaleikstjórum eins og António Reis og Margarida Cordeiro, Manoel de Oliveira, João César Monteiro og Pedro Costa, svo og auðvitað tónlist. Síðustu ár hef ég verið með annan fótinn í Portúgal og get ekki neitað því að þetta land er orðið mér ansi hugumkært.

Kvikmyndir sem listgrein eru einnig í miklu uppáhaldi. Að sitja í myrkvuðum sal og horfa á svipina líða um hellisvegginn. Sérstaklega myndir frá Frakklandi og frönskumælandi löndum s.s. fyrrum frönskum nýlendum í Afríku og víðar, en einnig frá Ítalíu, Þýskalandi og mörgum fleiri löndum. Eginlega flest annað en Hollywood. Nýjustu goðin eru hjónateymið Danièle Huillet og Jean-Marie Straub. Eftir mörg ár af glápi og grúski er mér vonandi óhætt að segjast – sem áhugamaður – hafa nokkuð vit á þessu efni.

Fleiri meðmæli gætu átt eftir að birtast í dagbókinni eftir því sem á líður.