[Hér á eftir fer sígild smásaga sem ég snaraði að gamni mínu og fannst tilvalið að deila með íslenskum lesendum á stysta degi ársins. Verði ykkur að góðu. Allar ábendingar um villur, brogað málfar o.þ.h. að sjálfsögðu vel þegnar.]
NÓTT
– martröð –
eftir Guy de Maupassant
Ég ann nóttinni heitt. Ég ann henni eins og maður ann landi sínu eða ástkonu sinni, af eðlislægri, djúpri og ósigrandi ástríðu. Ég ann henni með öllum mínum skilningarvitum, með augum mínum sem sjá hana, með þefskyni mínu sem andar henni að sér, með eyrum mínum sem hlusta á þögn hennar, með öllu hörundi mínu sem skuggarnir strjúka. Lævirkjarnir syngja í sólinni, í himinblámanum, í hlýju loftinu, í léttu lofti heiðskýrra morgna. Uglan þýtur um í nóttinni, svartur díll á ferð um svart rýmið, og gefur frá sér sitt hljómmikla og ógnvekjandi óp, glöð, ölvuð af óravíddum sortans.
Dagsbirtan finnst mér íþyngjandi og leiðinleg. Hún er gróf og ágeng. Ég fer á fætur með erfiðismunum, klæði mig máttleysislega, fer út úr húsi með semingi, og hvert skref, hver hreyfing, hver bending, hvert talað orð, hver hugsun þreytir mig eins og ég lyfti þungu fargi.
En þegar sólin gengur til viðar verður allur líkami minn gagntekinn af ruglingslegri gleði. Ég vakna og fer á ið. Eftir því sem skugginn lengist líður mér æ meir eins og öðrum manni, yngri, sterkari, næmari, hamingjusamari. Ég horfi á skuggann þykkna, steypast stóran og mjúkan niður af himnum: hann drekkir borginni eins og þykk og ósnertanleg alda; hann felur, þurrkar út, eyðir litum og formum, tekur hús, lifandi verur og minnismerki í óhlutkenndan faðm sinn.
Á þeim stundum langar mig að hrópa af ánægju eins og uglurnar, að hlaupa um húsþökin eins og kettirnir; og hvatvísleg, óslökkvandi ástarþrá blossar upp í æðum mínum.
Ég legg af stað, ég geng, stundum um myrkvuð úthverfin, stundum um skógana á jaðri Parísar, þar sem ég heyri ráfa um systur mínar skepnurnar og bræður mína veiðiþjófana.
Það sem við unnum ákaflega drepur okkur öll á endanum. En hvernig get ég útskýrt það sem kom fyrir mig? Hvernig gæti ég yfir höfuð gefið til kynna að ég gæti sagt frá því? Ég veit það ekki, ég veit ekki meir, ég veit það eitt að svona var það. – Það er allt og sumt.
Sem sagt, í gær – var það í gær? – já, það hlýtur að vera, nema það hafi verið fyrr, á öðrum degi, í öðrum mánuði, á öðru ári, – ég veit það ekki. Samt hlýtur það að hafa verið í gær, úr því að það hefur ekki dagað aftur, úr því að sólin hefur ekki risið aftur. En síðan hvenær hefur verið nótt? Síðan hvenær? … Hver getur sagt til um það? Hver mun nokkurn tíma vita það?
Hvað um það, í gær fór ég út úr húsi eins og ég geri á hverju kvöldi, eftir kvöldverð. Það var mjög milt og hlýtt í veðri. Er ég fór niður í átt að breiðstrætunum leit ég upp á svart og sindrandi stjörnuhafið yfir höfði mínu, skorið sundur af húsþökunum við götuna, sem létu þennan læk af himintunglum virðast ganga í bylgjum líkt og hann væri raunveruleg, rennandi elfur.
Allt sást greinilega í tæru loftinu, pláneturnar jafnt sem gasluktirnar. Svo margir eldar brunnu þarna uppi og í borginni að sjálfir skuggarnir virtust bjartir. Bjartar nætur eru glaðlegri en sólríkir dagar.
Á breiðstrætinu sindruðu kaffihúsin af hlátri, umgangi og drykkju. Ég brá mér inn í leikhús nokkur augnablik. Í hvaða leikhús? Ég man það ekki. Það var svo bjart þar inni að ég varð niðurdreginn og fór út aftur, hálf dapur í bragði yfir því hvernig ofsafengin birtan skall á gylltu svalahandriðinu, yfir fölskum glampa stóru kristalsljósakrónunnar, yfir ljósaröðinni fremst á leiksviðinu, yfir dapurleikanum sem lagði af þessum óekta og skæra bjarma. Ég kom til Champs-Élysées þar sem kaffihúsatónleikarnir virtust vera logandi bál innan um laufskrúðið. Kastaníutrén, roðin gulum bjarma, litu út fyrir að vera máluð, eins og sjálflýsandi tré. Og rafmagnsperurnar, eins og geislandi og fölir mánar, eins og egg sem höfðu dottið niður úr tunglinu, eins og tröllauknar lifandi perlur, vörpuðu frá hvítum skeljum sínum svo dularfullri og konunglegri útgeislun að skítugar gasluktirnar og borðarnir, skreyttir lituðum glerjum, bliknuðu við hlið þeirra.
Ég nam staðar undir Sigurboganum til að virða fyrir mér breiðgötuna, þessa löngu, dásamlegu og stjörnum prýddu breiðgötu, sem lá til Parísar milli tveggja raða af götuljósum, og himintunglin! Himintunglin hátt yfir mér, óþekktu himintunglin sem hafði verið kastað af handahófi um víðáttur geimsins, þar sem þau mynda þessi skrýtnu merki sem vekja með okkur svo margar hugleiðingar og drauma.
Ég fór inn í Boulogne-skóg og var þar lengi, lengi. Óvenjulegur hrollur hríslaðist um mig, óvænt og kraftmikil tilfinning, hugaræsingur sem jaðraði við vitfirringu.
Ég gekk lengi, lengi. Síðan sneri ég við.
Hvað var klukkan þegar ég fór bakaleiðina aftur undir Sigurbogann? Ég veit það ekki. Borgin var í fastasvefni og ský, stór, svört ský, voru tekin að breiða rólega úr sér yfir himininn.
Í fyrsta sinn fannst mér eins og eitthvað skrýtið, eitthvað óvenjulegt, væri í aðsigi. Mér virtist sem nú væri orðið kalt í veðri, að loftið væri tekið að þykkna upp, og að nóttin, nóttin mín ástkæra, ylli mér þyngslum fyrir hjarta. Nú var breiðgatan yfirgefin. Einungis tveir lögregluþjónar voru á vappi kringum hestvagnastöðina og á akbrautinni, naumlega upplýstri af gasluktunum, sem virtust að því komnar að slokkna, var lest af grænmetiskerrum á leið til Les Hallesi. Þær fóru hægt yfir, hlaðnar gulrótum, næpum og kálhausum. Eklarnir dottuðu utan sjónmáls og hrossin gengu jöfnum, hljóðlausum skrefum í humátt á eftir næstu kerru fyrir framan sig á timburgötunni. Undir hverju götuljósi birtust gulræturnar rauðar, næpurnar hvítar, kálhausarnir grænir; þannig fóru þær hjá hver á eftir annarri, þessar kerrur rauðar sem eldur, hvítar sem silfur, grænar sem smaragðar. Ég elti þær og beygði síðan inn á Rue Royale og var aftur kominn á breiðstrætin. Enginn var á ferli, kaffihúsin voru öll búin að loka og einungis örfáir þaulsetugestir að flýta sér heim. Ég hafði aldrei séð París svo dauða, svo yfirgefna. Ég dró fram úrið mitt, klukkan var tvö.
Eitthvert afl rak mig áfram, einhver þörf fyrir að ganga. Ég hélt þess vegna áfram sem leið lá allt til Bastillunnar. Þar rann upp fyrir mér að ég hafði aldrei áður upplifað svo dimma nótt, því ég grillti jafnvel ekki júlísúlunaii né gyllta frelsisstyttuna á toppi hennar, sem var horfin inn í órjúfanlegt rökkrið. Skýjahvelfing, þykk eins og óendanleikinn sjálfur, hafði kaffært stjörnurnar og virtist vera að leggjast yfir jörðina í því skyni að tortíma henni.
Ég snerist á hæli. Nú var ekki nokkur sála nálægt mér. Á Place du Château-d’Eau var þó einn fylliraftur, sem rakst næstum utan í mig og gufaði síðan upp. Í nokkra stund gat ég heyrt ójafnt og skellandi fótatak hans. Ég hélt áfram för. Efst uppi á Faubourg Montmartre fór farþegavagn hjá, á leiðinni niður að Signu. Ég hóaði á hann. Ekilinn ansaði mér ekki. Nálægt rue Drouot var kona nokkur að sniglast um. „Kæri herra, heyrið þér aðeins“. Ég greikkaði sporið til að forða mér undan útréttri hönd hennar. Síðan ekki meir. Fyrir framan Vaudeville var tuskusafnari að róta í göturæsinu. Litla luktin hans var á hreyfingu rétt fyrir ofan götuna. Ég spurði hann: „Heyrðu félagi, hvað er klukkan?“
„Hvernig á ég að vita það? Ekki er ég með úr“, rumdi hann.
Þá varð ég þess skyndilega áskynja að búið var að slökkva á öllum götuljósunum. Ég veit að á þessum árstíma er slökkt á þeim snemma, fyrir dögun, í sparnaðarskyni. En það var enn langt, svo langt í sólarupprás!
„Best að fara til Halles“, sagði ég við sjálfan mig; „þar hlýtur þó að minnsta kosti að vera lífsmark.“
Ég lagði af stað, en sá ekki einu sinni til vegar. Mér miðaði hægt áfram, eins og ég væri í skógi, og henti reiður á götunum með því að telja þær.
Fyrir framan Crédit Lyonnais urraði hundur. Ég beygði inn í rue de Grammont og villtist. Ég ráfaði um uns ég bar kennsl á kauphöllina af rimlagirðingunni sem umlykur hana. Öll París svaf fastasvefni, djúpum og skelfilegum. Langt í burtu var þó einn hestvagn á ferð, einn einasti hestvagn, kannski sá sami og hafði farið fram hjá mér skömmu áður. Ég reyndi að hlaupa hann uppi, rennandi á hljóðið frá vagnhjólunum eftir yfirgefnum og svörtum, svörtum, helsvörtum strætunum.
Ég villtist aftur. Hvar var ég? Hvaða brjálæði var það að slökkva götuljósin svona snemma! Ekki einn einasti vegfarandi, ekki einn einasti nátthrafn, ekki einn einasti skuggabaldur, ekki einu sinni breimandi köttur. Ekkert.
Hvar var lögreglan eiginlega? „Ég hrópa, þá koma þeir“, sagði ég sjálfum mér. Ég hrópaði. Enginn svaraði.
Ég hrópaði hærra. Rödd mín fjaraði út án bergmáls, máttlítil, kæfð, kramin af nóttinni, þessari órjúfanlegu nótt.
Ég öskraði: „Hjálp! Hjálp! Hjálp!“
Örvæntingaróp mín fengu ekkert svar. Hvað var klukkan? Ég dró fram úrið mitt en var orðinn eldspýtnalaus. Ég hlustaði á létt tifið í litla gangverkinu af frámunalegri og furðulegri gleði. Það virtist vera lifandi. Mér fannst ég ekki jafn einsamall. Hvílík ráðgáta! Ég fór aftur að ganga um eins og blindur maður, þreifandi eftir veggjunum með stafnum mínum, og gaut augunum ótt og títt upp til himna, í þeirri von að nú færi að rofa til; en háloftin voru myrkvuð, alveg myrkvuð, myrkvaðri en borgin.
Hvað gæti klukkan verið? Mér fannst ég hafa gengið í heila eilífð því að fótleggir mínir voru farnir að kikna undan mér, ég var orðinn móður og hræðilega svangur.
Ég ákvað að hringja bjöllunni við fyrsta vagnhlið sem yrði á vegi mínum. Ég togaði í koparbjöllustrenginn og bjölluhljómurinn ómaði um hljóðbært húsið; en hann hljómaði, undarlegt nokk, eins og þetta hvella hljóð væri það eina í öllu þessu húsi.
Ég beið, ekkert svar, enginn opnaði hurðina. Ég hringdi aftur, ég beið lengur – ekkert.
Ég var orðinn hræddur! Ég hljóp að næsta mannabústað og hringdi tuttugu sinnum bjöllunni í dimmum ganginum þar sem húsvörðurinn hefði átt að vera sofandi. En hann vaknaði ekki – svo að ég hélt áfram að toga af öllu afli í allar bjöllur og hurðarhúna, sparkaði og barði með stafnum mínum og höndunum í þessar hurðir sem héldust þrákelnislega lokaðar.
Og skyndilega rann upp fyrir mér að ég var kominn til Les Halles. Markaðurinn var yfirgefinn, þar varð ekki vart við neitt hljóð, neina hreyfingu, neinn vagn, neina mannveru, neitt grænmeti eða blómvönd. Hann var tómur, hreyfingarlaus, yfirgefinn, dauður!
Skelfing greip mig. Hvað var um að vera? Ó, Guð minn góður! Hvað var eiginlega um að vera?
Ég lagði aftur af stað. En hvað var klukkan? Klukkan? Hver gæti sagt mér hvað klukkan væri? Bjöllurnar í öllum kirkjuturnum og minnismerkjum voru þagnaðar. Ég hugsaði: „Ég ætla að taka glerið af úrinu mínu og þreifa á vísunum með fingrunum“. Ég dró fram úrið mitt … það tifaði ekki lengur … það var hætt að ganga. Nú var ekkert, ekkert, ekki minnsti þytur í allri borginni, engin skíma, ekki minnsta hvísl í loftinu. Ekkert! Alls ekkert! Ekki einu sinni skröltið í vagni í fjarska – alls ekkert!
Ég var kominn að árbakkanum og jökulkulda lagði upp af fljótinu.
Skyldi Signa enn streyma?
Ég vildi vita það, ég fann tröppurnar, ég fór niður… ég heyrði ekki niðinn í straumnum undir brúarbogunum… fleiri þrep… síðan sandur… leðja… síðan vatn… ég dýfði hendinni í það… það streymdi… það streymdi… kalt… kalt… kalt… næstum frosið… næstum uppþornað… næstum dautt.
Og ég skildi mætavel að ég myndi aldrei finna kraftinn til að fara upp aftur… og að ég myndi deyja þarna… einnig ég, úr hungri – úr þreytu – og úr kulda.
14. júní 1887
i Les Halles: var áður fyrr aðal heildsölumarkaður Parísarborgar. Um hann skrifaði Émile Zola skáldsöguna Le Ventre de Paris (Kviður Parísar). Hann stóð í 1. hverfi en var rifinn árið 1971 og verslunarhverfið Forum des Halles byggt þar í staðinn.
ii Júlísúlan: la colonne de Juillet er stór minnisvarði á Bastillutorgi í París, reistur til minningar um byltinguna árið 1830. Á toppi hennar stendur Andi frelsisins, gyllt stytta af engil með kyndil í hönd. Súlan var vígð 1840.