Lissabon sumarið 2017

Ykkur finnst túrisminn kannski slæmur í Reykjavík, en ég get lofað að hann er verri í Lissabon. Eftir kreppuna (sem var ekki löndunum á jaðri Evrópu að kenna sama hvað hver segir) hefur Portúgal orðið háðara túrisma en áður, ásamt því að margir ferðamenn sem áður hefðu farið til Marokkó, Túnis eða Alsírs flykkjast nú til litla landsins yst á Íberíuskaga til að upplifa þar einhvers konar “exótík” sem þeim finnst sambærileg við Norður-Afríku en eiga síður á hættu að vera drepnir í hryðjuverkaárás. En munurinn á borgunum tveimur er að Reykjavík var frekar ömurleg fyrir, grá, niðurdrepandi og svo takmörkuð af borg að vera, að minnsta kosti síðan ég flutti þangað fyrst í byrjun aldarinnar. Lissabon, hinsvegar, hafði og hefur enn upp á ansi margt að bjóða. Nú er ferðamannaiðnaðurinn að plægja sig í gegnum gamalgróna borgarhluta og setja lífsmynstur íbúanna þar úr skorðum. Breytingin síðan ég kom þangað fyrst fyrir sjö árum er mjög áberandi.

Hvað um það. Af því að ég veit að margir Íslendingar hafa sótt Lissabon heim og að þeim á eftir að fjölga, þá datt mér í hug að taka saman fáein atriði, aðallega varðandi mat og söfn, sem gætu reynst gagnleg, til að hafa í huga í ferðinni í þeirri von að þau stuðli að betri upplifun fyrir alla, bæði gesti og heimamenn.

Matur:

Á skömmum tíma hefur sprottið upp sægur af dýrum og flottum veitingastöðum. Eins og alls staðar þar sem túrismasprengja springur er erfitt að fylgjast með þeirri senu, hafa yfirsýn. Sjálfsagt eru einhverjir af þessum nýju, fínu stöðum góðir, ég þekki það ekki.

En ég mæli frekar með að prófa fábrotna, hversdagslega veitingastaði sem kallast tascas, þar sem serveraður er venjulegur portúgalskur heimilismatur fyrir lítinn pening. Til dæmis alls kyns hrísgrjónaréttir þar sem uppistaðan getur verið túnfiskur, kjúklingur, kolkrabbi og ýmislegt fleira. Eða caldo verde, sem er hin dæmigerða grænmetissúpa, holl, góð og ódýr. Eða ýmsir steiktir smáréttir, snarl í rauninni, sem sameiginlega kallast salgados, til dæmis  pasteis de bacalhau (fiskibollur úr þorski) eða rissois (rækjugóðgæti). Eða torrada, sem er tæknilega séð bara ristað brauð með smjöri, en það segir bara hálfa söguna því þetta er stór sneið af almennilegu brauði, ekki einhverju samlokubrauði úr Bónus, og vel tilreidd, vel ristuð og með hæfilega miklu bræddu smjöri. Eða tosta mista, sem er í raun bara grilluð samloka með osti og skinku, en aftur er þar bara hálf sagan sögð.

Ef mann langar í skyndibita þá mæli ég – frekar en að skipta við McDonalds eða einhverja ámóta viðbjóðslega bandaríska keðju – með því að skjótast inn á næsta venjulega “kaffihús”, næsta tasca, og panta þar dæmigerða steikarsamloku, annað hvort bifana (svínakjöt) eða prego (nautakjöt), sem kostar kannski tvær evrur og fimmtíu. Jafnvel salla í sig einum imperial með, þótt portúgalskur bjór þyki almennt ekki upp á marga fiska (reyndar er handverksölið líka komið hingað). En persónulega finnst mér nú hálf ankannalegt að koma hingað til að fá sér bjór. Þetta er vínland. Það er hvort eð er hægt að drekka bjór og borða pítsur alls staðar – hví þá að koma hingað til þess?

Margir kannast við pasteis de nata, litlu gulu kökurnar sem eru orðnar álíka mikil klisja og íslenski harðfiskurinn. En málið með þessar kökur er að þær eru svo fullar af eggjum – eins og reyndar flest portúgalskt bakkelsi – að þær seðja hungrið furðu lengi og ættu ekki að kosta nema svona 90 sent eða eina evru.

Allt ofantalið er hlægilega ódýrt, eða á að vera það, og á svona löguðu er hægt að komast af ef maður er knappur með klinkið, allavega í svolítinn tíma.

Reynið að fara á staði þar sem kaffibollinn (espressó) kostar ekki nema 60 til 65 sent. Það er eðlilega verðið og kaffið er afbragðs gott. Í gegnum tengsl við gömlu nýlendurnar hafa portúgalskir kaffiframleiðendur þróað frábærar blöndur, svolítið af sterka bragðinu frá Angóla, svolítið af sæta bragðinu frá Tímor og svo framvegis. Almennt eru kaffi, ólífuolía og vín héðan alveg fyrsta flokks.

Ávextirnir geta verið alveg guðdómlegir. Engin furða að arabíska orðið yfir appelsínu er náskylt landaheitinu Portúgal.

Og að sjálfsögðu á maður að borða fisk. Ekki láta eins og engilsaxneskir villimenn sem éta bara steikur og hamborgara. Prófið einhverjar af þeim skrilljón saltfiskuppskriftum sem til eru í þessu landi. Troðið í ykkur saltfiski, eftir því sem mér skilst er hvort eð er auðveldara að kaupa þorsk frá til dæmis Grindavík í Lissabon heldur en í Grindavík. Og hér hjá mestu fiskinnflutningsþjóð Evrópu er hann í góðum höndum, hjá fólki sem kann í alvöru að elda hann. Hvernig haldið þið að nokkur kúltúr geti orðið til í kringum þessa afurð ef hún er öll bara flutt út jafnharðan og hún veiðist? Borðið ferskar sardínur, lærið kúnstina við að fjarlægja roðið og ná kjötinu af beinunum án þess að kremja það, ekki flaska á að setja sardínurnar ofan á brauðið eina af annari og borða svo brauðið síðast, gegnsósa af sardínufitu. Og ekki bíða of lengi með það því Evrópusambandið er að hóta að leggja bann við sardínuveiðum. Ekki vera feimin við að snæða sem flestar furðuskepnur úr hafinu, ef þær eru ferskar, og skolið þeim niður með vinho verde, “græna” víninu. Ég skal mæla með að minnsta kosti einum stað til þess arna: Barcabela heitir hann, uppi á Avenida Almirante Reis, nálægt Intendente.

Í sumar tók ég eftir að í miðborginni, í hverfunum Baixa, Chiado og víðar, eru komnar einhverjar glansbúðir sem selja túnfisk, sardínur og annað sjávarfang í dósum. Nú er portúgalskur dósafiskur vissulega almennt mjög góður, margfalt, margfalt betri en Ora-ruslið sem íslendingar virðast gera sér að góðu. En staðreyndin er samt sú að í Portúgal er hægt að fara út í næstu kjörbúð og kaupa svona dósavöru sem er alveg jafn góð og í glansbúðunum en miklu ódýrari, þótt umbúðirnar séu ef til vill ekki jafn fínar.

Söfn:

Jarðfræðisafnið í hverfinu Princípe Real er frábært. Safnið sjálft er líka áhugavert sögulega séð, að því leyti að það er eins og söfn voru á 19. öld.

Museu do Aljube er nýtt safn og – að mér skilst – það fyrsta í landinu sem er helgað einræðistímanum (fyrir þá sem ekki vita var Portúgal í klóm fasismans næstum hálfa 20. öldina). Sjálf byggingin, Aljube, var áratugum saman notuð til að geyma pólitíska fanga. Safnið sjálft er kannski dálítið ruglingslega upp sett, sérstaklega ef maður er ekki kunnugur þessari sögu, en samt sem áður er þetta saga sem allir ættu að kynna sér.

Museu do Oriente. Flennistórt og metnaðarfullt safn úti í Alcântara, helgað menningu Austurlanda fjær, í tilefni af mikilli nærveru Portúgala í Asíu á nýlendutímanum. Tvímælalaust eitt besta safnið í borginni. Frítt inn á föstudagskvöldum eftir kl. 18.

Museu Calouste Gulbenkian er án vafa besta listasafn í borginni, jafnvel í öllu landinu. Byggingin sjálf er líka með þeim fallegri og umhverfis það er stór og yndislegur lystigarður, öllum opinn, þar sem gott er að slappa af í góða veðrinu. Ekki klikka á að fara í Gulbenkian. Frítt inn á sunnudögum eftir kl. 14.

Í síðustu árum hefur listagalleríum fjölgað talsvert. Ég myndi til dæmis líta við í einu litlu galleríi sem heitir Mandragoa, í hverfinu Santos.

Skammt frá Mandragoa, í hverfinu São Bento, er Atelier-Museu Júlio Pomar, nefnt í höfuðið á samnefndum listamanni sem er hátt skrifaður í Portúgal en lítt þekktur utan landsteinanna. Fallegt, lítið safn (kannski af svipaðri stærð og Ásmundarsafn) sem er ekki á allra vitorði.

Rétt hjá Largo do Rato, við Jardim das Amoreiras fyrir aftan 18. aldar vatnsþróna er safn helgað listakonunni Vieira da Silva, þeim portúgalska myndlistarmanni sem notið hefur mestrar alþjóðlegrar velgengni hingað til (hugsanlega fyrir utan Paulu Rego). Mjög fínt safn og vel þess virði að heimsækja.

Úti í hverfinu Belém, þar sem er allt krökkt af söfnum og minnisvörðum, er nú búið að opna nýtt nýlistasafn sem heitir MAAT. Mér finnst ekki ennþá liggja fyrir hverju það bætir við, eða hvað það gerir sem Centro Cultural de Belém eða CCB, risastór menningarmiðstöð sem er þarna rétt hjá, gæti ekki alveg eins gert. Kannski er þetta dæmi um þann gamalkunna tendens hjá stjórnmálamönnum að vilja alltaf byggja ný hús, eyða peningunum í steypu, frekar en að nota þá bara til að gera góðar sýningar í því húsnæði sem fyrir er. Eða kannski var ákveðið að byggja þetta í von um “Bilbao-áhrif” eins og sumir kalla það, með vísun í Guggenheim-safnið sem Frank Gehry hannaði fyrir Bilbao á Spáni og margfaldaði ferðamannastrauminn til þeirrar borgar.

Í öllu falli er alltaf hægt að bregða sér á Rafmagnssafnið, gamalt orkuver sem var breytt í ágætt iðnaðar- eða tæknisafn og er hluti af MAAT, sem þýðir að myndlist er líka til sýnis þar. Í evrópsku skuldakreppunni, þegar Evrópusambandið neyddi PIGS-ríkin svokölluðu til að einkavæða sem mest, seldi portúgalska ríkið Kínverjum hlut sinn í opinbera orkufyrirtækinu. Ef þú, lesandi góður, leggur leið þína á þetta safn þá þarf þig ekki að undra ef það vill svo til að þar sé stór sýning einhvers kínversks listamanns …

Það er frítt inn á öll söfn á vegum hins opinbera á sunnudögum til kl. 14. Þetta gildir hinsvegar ekki um sjálfstæð söfn, t.d. Gulbenkian. Það borgar sig alltaf að gúggla hvert það safn sem mann langar að heimsækja til að ganga úr skugga um þetta atriði.

Annað:

Lítið við í litlu bókabúðinni Fabula Urbis, hjá dómkirkjunni Sé. Það er búð sem sérhæfir sig í bókum sem tengjast Lissabon eða Portúgal á einhvern hátt og hefur tekist að safna saman ýmsum áhugaverðum titlum, líka á ensku, frönsku, þýsku, spænsku og ítölsku. Fljótt fljótt, áður en hún fer á hausinn og þarf að víkja fyrir minjagripabúð.

Svo eru auðvitað ýmsir aðrir staðir sem ég hef mætur á, litlir staðir, jafnvel staðir þar sem fólk með alls kyns meiningar kemur saman. En það er ekki séns að ég kjafti frá þeim á einhverri bloggsíðu.

One Reply to “Lissabon sumarið 2017”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *