“Þér sjáið að stundum voru til menn sem treystu því að morgundagurinn hlyti ekki að verða nákvæmlega eins og dagurinn í dag.”
– Sigfús Daðason, Fá ein ljóð
Fyrir talsvert löngu gaf Jóhanna vinkona mín mér heimasíðu í afmælisgjöf. Lengi var ég þó heldur tregur til að þiggja þessa góðu gjöf, því satt best að segja finnst mér ég bara ekki nógu merkilegur til að taka þetta pláss á Internetinu. En á endanum lét ég sumsé til leiðast, eins og sjá má. Best að gefa þessu séns. Hver veit nema að fyrir vikið eyði minni tíma á samfélagsmiðlum, sem væri jákvætt, enda eru þeir óhollir, ekki ósvipað og hamborgarar eða sígarettur. Eins og að hjakka fastur í einhverjum gömlum, toxískum félagsmynstrum frá fyrra tilveruskeiði. Sjáum til – kannski maður eigi stundum eftir að viðra hér einhverjar (ótímabærar og vanhugsaðar) hugleiðingar. Líklega þó mjög stopult, miðað við mína frammistöðuskrá hingað til.