Líklega hef ég aldrei farið jafn oft í bíó og ofangreindan vetur í Berlín. Þá vildi nefnilega svo til að haldnir voru í Berlínarborg þrír viðburðir, hver á eftir öðrum, sem á erlendum málum kallast “retrospective”. Ef til vill segir það sína sögu um kvikmyndamenningu á Íslandi að ekkert íslenskt orð er mér tamt á tungu yfir þetta fyrirbæri og þrátt fyrir nokkur heilabrot hefur mér ekki hugkvæmst neitt viðunandi orð. Í myndlist heitir þetta auðvitað bara yfirlitssýning. En hvað þegar um er að ræða skipulagðar kvikmyndasýningar á heildarverkum einhvers tiltekins leikstjóra?
En semsagt: þessi vetrarlanga veisla hófst um haustið með prógrammi sem helgað var Danièle Huillet og Jean-Marie Straub. Öll filmógrafía þeirra hjónanna eins og hún leggur sig var sýnd í nokkrum kvikmyndahúsum víðs vegar um borgina og yfirleitt ekki stafrænar útgáfur heldur alvöru filmur, mestmegnis 16mm eða 35mm, enda er það mikill misskilningur að stafrænt sé endilega betra en vel varðveitt eintak af filmu. Miðpunktur dagskrárinnar var síðan vönduð sýning í Akademie der Künste við Hanseatenweg, þar sem gat að líta ýmsar myndbandsinnsetningar með viðtölum við leikstjóraparið og völdum bútum úr myndum þeirra, hin og þessi skjöl, ljósmyndir og önnur gögn og muni frá gervöllum ferli þeirra, auk nokkurra listaverka eftir aðra, innblásinna af eða í samræðu við verk Straub/Huillet.
Erfitt er að lýsa myndum þeirra í fáum orðum. En til bráðabirgða má kannski segja að þau séu mjög róttæk, bæði í listrænum og pólitískum skilningi. Þau hafa sína rammpólitísku fagurfræði sem birtist í hverjum einasta ramma í myndum þeirra. Meðal annars í þessu algjöra jafnrétti innan myndflatarins, þar sem til dæmis tré eða steinar fá nákvæmlega jafn mikið vægi og leikararnir. Tempóið í myndunum getur líka verið mjög hægt, því þau reyna virkilega að gefa manni færi á að skynja og meðtaka það sem fram fer á tjaldinu. Það er freistandi að segja að myndirnar þeirra séu algjör andstæða afþreyingarkvikmynda, þar sem er sífellt verið að stýra því hvert áhorfandinn horfir og kæfa ímyndunarafl hans og sköpunargáfu. Síðan ég kynntist kvikmyndagerð Straub og Huillet er ég farinn að upplifa flestar Hollywood-myndir eins og ég sé með svona augnablöðkur sem sjá til þess að maður horfi aldrei til hliðar heldur bara beint áfram, eins og eru spennt á hross (og sem mér skilst reyndar að sé líka farið að beita á fólk sem vinnur í opnum skrifstofurýmum . . .) Ég get ekki annað en mælt eindregið með öllum myndum Straub og Huillet (þ.e. þeim sem ég hef séð); til dæmis er gott að byrja á Chronik der Anna Magdalena Bach, frá árinu 1968, um eiginkonu Jóhanns Sebastians Bach. Eða Klassenverhältnisse, aðlögun á skáldsögunni Ameríku eftir Kafka. Einnig bendi ég á heimildamyndina Où gît votre sourire enfoui? (“Hvar hvílir grafið bros þitt?“) sem portúgalski snillingurinn Pedro Costa gerði um hjónin.
Næsta “retróspektíf” í Berlín þennan vetur var bundið við hina frábæru kvikmyndastofnun Arsenal við Potsdamer Platz og var haldið til minningar um heimamanninn Harun Farocki, sem lést árið 2014. Eins og Straub og Huillet var hann róttækur vinstrimaður og notaði kvikmyndamiðilinn alla tíð til að greina samfélagið og myndmál þess í ótalmörgum heimildamyndum og “essay”-myndum, mjög misjöfnum að lengd og umfjöllunarefni. Sem dæmi má taka myndina Nicht löschbares Feuer (“Óslökkvanlegur eldur“) frá árinu 1969, sem fjallar um notkun Bandaríkjahers á napalmi í Víetnam-stríðinu og er svolítið alræmd fyrir það að í henni drepur Farocki á logandi sígarettu í vinstri upphandleggnum á sjálfum sér. Annað gott dæmi væri Wie man sieht (“Eins og sést“) frá 1986, þar sem hann fer um víðan völl í samfélagsgreiningu sinni og leyfir sér að gera ýmsar frumlegar tengingar. En magnaðasta myndin sem ég náði á þessu prógrammi heitir Videogramme einer Revolution, frá 1991, og fjallar um byltinguna í Rúmeníu 1989, þegar Ceaușescu var steypt af stóli. Myndin er öll sett saman úr raunverulegum sjónvarpsupptökum frá þeim atburðum og er æsispennandi, þrátt fyrir að maður viti hvernig þetta fer. Áhorfandanum (allavega þessum hér) líður eins og hann sé að horfa á mannkynssöguna gerast.
Þriðja og síðasta “retróspektífið” fjallaði svo um Bretann Peter Watkins og var haldið í Wolf Kino, litlu bíói sem opnaði fyrir fáeinum árum í hverfinu Neukölln. Þar er því miður hvorki hátt til lofts né vítt til veggja. Einnig var loftkælingin eitthvað slöpp þessar vikurnar; að horfa á fimm og hálfrar klukkustundar langa meistaraverkið La Commune (Paris, 1871) í hitabylgjunni 2018 — tja, við skulum orða það sem svo að það herði mann. Einnig verður að segjast eins og er, að gestir þessa kvikmyndahúss virðast í heildina dulítið óþroskaðri en til dæmis í Arsenal, sem lýsir sér í pískri, flissi og almennt nettum skorti á virðingu fyrir listgreininni. Engu að síður er það Wolf Kino til mikils hróss að hafa ráðist í að halda þetta retróspektíf, sér í lagi um jafn ögrandi jaðarfígúru og Watkins, og fylgja því úr hlaði með flottu greinasafni þar sem fræðimenn gera upp feril hans.
Watkins er uppreisnarmaður. Myndirnar hans geta af ýmsum ástæðum verið erfiðar áhorfs. Hjá BBC leist mönnum ekki á blikuna þegar hann kom með myndina The War Game, árið 1965, sem fjallar um hugsanlegar afleiðingar kjarnorkustyrjaldar í Bretlandi; í stuttu máli var hún dregin til baka og ekki sýnd, á þeim forsendum að breskur almenningur yrði of miður sín af að sjá hana. Eitt helsta höfundareinkenni Watkins er að hann blandar saman nálgun heimildamynda og leikinni sviðsetningu, líka þegar efniviðurinn er einhverjir atburðir í fjarlægri fortíð, með því að láta eins og nútíma fjölmiðlar hafi verið til þá. Þetta gerir hann meðal annars í áðurnefndri La Commune (sem er algjört skylduáhorf fyrir alla róttæklinga) og Culloden, um samnefnda orustu úr sögu Bretlands. Þar er sjónvarpið mætt og meðlimir Parísarkommúnunnar sem og 18. aldar Skotar eru teknir í viðtal. Eins er það í myndinni um Edvard Munch, frá 1974, bestu kvikmynd um myndlistarmann sem ég hef séð, þar sem Norðmenn frá ofanverðri 20. öld eru látnir leika samtíðarmenn Munch og rakka niður málverkin hans. Reyndar hefur Watkins starfað mikið í Skandinavíu og gert nokkrar myndir um norsk, dönsk og sænsk efni; sjá til dæmis 70’ernes folk og Aftenlandet fyrir áhugaverða sýn á Danmörku. Síðan er umhugsunarvert af hverju Watkins er — að því er mér skilst — nánast gleymdur á Bretlandseyjum á meðan Ken Loach, miklu óáhugaverðari leikstjóri, baðar sig í sviðsljósinu.
Allir þessir kvikmyndasmiðir verðskulda að um þá sé fjallað í miklu lengra máli, en til bráðabirgða vildi ég í það minnsta nótera einhvers staðar að þessir viðburðir voru haldnir og að ég sótti þá. Ég elska kvikmyndir (svo lengi sem þær eru ekki eitthvert lágkúrulegt, forheimskandi rusl eins og oft er tilfellið í meginstraumnum) og upplifunina af því að fara í bíó, sitja í sýningarsal, myrkvuðum fyrir utan tjaldið. Svona retróspektíf eru besta leiðin til að kynnast höfundarverki tiltekins leikstjóra og ég get ekki annað en óskað þess að einhver slík verði einhvern tímann haldin á Íslandi. Þá kannski færu Íslendingar loksins að taka þetta listform alvarlega.