eftir Charles Baudelaire,
úr Le Spleen de Paris – petits poèmes en prose (1869)
Þetta líf er spítali þar sem hver sjúklingur er haldinn þeirri þrá að skipta um rúm. Þessi kysi heldur að þjást fyrir framan ofninn og hinn telur að sér myndi batna við gluggann.
Mér virðist sem svo að ég væri ávallt vel staddur þar sem ég er ekki og þetta flutningamál er eitt þeirra sem ég ræði í sífellu við sál mína.
„Segðu mér, sál mín, vesalings kulnaða sál, hvernig litist þér á að búa í Lissabon? Þar hlýtur að vera heitt og þú myndir njóta þín eins og eðla. Sú borg liggur við vatn; sagt er að hún sé reist úr marmara og að fólkið þar hati svo mjög gróður að það slíti upp öll tré. Það er nú landslag þér að skapi; landslag búið til úr ljósi og steindum og vökvi til að spegla þau í!“
Sál mín ansar engu.
„Úr því að hvíld er þér svo kær, með ysinn og þysinn þér til áhorfs, viltu þá koma og búa í Hollandi, þeim sælureit? Ef til vill gætirðu stytt þér stundir í þeirri byggð sem þú hefur svo oft dáðst að eftirmyndinni af á söfnum. Hvað fyndist þér um Rotterdam, þér sem dýrkar skóga úr möstrum og skip sem liggja bundin við þröskulda húsa?“
Sál mín er þögul sem fyrr.
„Batavía væri þér kannski meira að skapi? Þar myndum við hitta fyrir anda Evrópu, gefinn saman við trópíkalíska fegurð.“
Ekki múkk. Gæti sál mín verið dauð?
„Ertu þá sokkin í slíkan doða að þú unir þér hvergi nema í eigin eymd? Ef svo er skulum við flýja til landa sem eru hliðstæður dauðans. Ég skal sjá um þetta, grey sál! Pökkum niður fyrir Tornio. Förum enn lengra, innst inn í Eystrasalt; ennþá lengra frá lífinu, ef hægt er; komum okkur fyrir á pólnum. Þar strýkst sólin ekki við jörðina nema skáhallt og hæg víxl birtu og nætur afnema tilbreytingu og auka einhæfni, þann helming tómsins. Þar gætum við baðað okkur lengi upp úr skuggum og til afþreyingar myndu norðurljósin af og til senda okkur sína bleiku vendi, eins og endurskin af flugeldi úr Helvíti!“
Loksins springur sál mín og viturlega hrópar hún á mig: „Hvert sem er! Hvert sem er! Bara að það sé út úr þessum heimi!“