Þýtt ljóð fyrir Ásgeir H

Ætli leiðir okkar Ásgeirs hafi ekki fyrst legið saman í sumarvinnunni hjá Akureyrarbæ. Gott ef hann var ekki sláttumaður. Löngu síðar sköruðust leiðir okkar aftur í Reykjavík, á námsárunum, einkum á einhverjum misgeðslegum börum, súrum ljóðakvöldum og ef til vill pólitískum samkomum. Um tíma, fyrir langa löngu, á einhverju öðru tilveruskeiði, vorum við meðleigjendur í kjallaraíbúð í Þingholtunum. Þegar Ásgeir var fluttur inn og fór að sýna mér bóka- og DVD-safnið sitt kom nú fljótt í ljós að við höfðum afar ólíkan smekk, ólíkar skoðanir á mörgu og ólíka skapgerð.

En það var ein ljóðabók sem hann hélt sérstaklega að mér þá: Bókarlangur bálkur eftir tékkneskan módernista sem hét Vladimir Holan og þetta langa ljóð hans nefnist Nótt með Hamlet. Reyndar hefur mér alltaf þótt þetta hálfkómískur titill. En hvað um það. Þetta er myrkt, óaðgengilegt og jafnvel dálítið skrýtið ljóð þar sem stundum er brugðið upp sláandi og óhugnanlegum myndum. Köfnun, stöðnun og innilokun virðast mér vera einna veigamestu þemun í því – tilfinningar sem mér skilst að hafi hrjáð fleiri tékkneska listamenn á þessum árum í aðdaganda innrásarinnar 1968. Köfnun? Stöðnun? Innilokun? Ætli þetta séu tilfinningar sem margir Íslendingar gætu líka kannast við?

Fyrir fáeinum árum, þegar ég var nýlega fluttur aftur til Íslands, barst mér óvænt orðsending frá Ásgeiri. Hann hefði þá skömmu áður verið í einni af Íslandsheimsóknum sínum og sagði að ég ætti að fara upp í Nexus í Glæsibæ, hitta þar Gísla Nexus og fá hjá honum einhverja dularfulla sendingu. Hvað í ósköpunum ætli það sé, hugsaði ég. Flaska af Becherovka? En gott og vel, ég lagði leið mína í Glæsibæ og sá þá í fyrsta sinn þann mikla furðuheim sem þessi Nexus-verslun er, hitti Gísla og fékk hjá honum sendinguna dularfullu, sem reyndist þá vera ljósrit af ljóðabókinni Nótt með Hamlet í heild sinni. Jæja, hugsaði ég, hann vill greinilega að ég lesi þetta allt.

Ég vissi ekki á sama tíma og margir aðrir að Ásgeir væri veikur. Facebook-færsla hans þess efnis fór fram hjá mér. En þegar ég frétti það byrjaði ég að þýða upphaf ljóðsins með það fyrir augum að senda honum þýðinguna í von um að gleðja hann og kannski sem kveðjugjöf. Sem frumtexta hafði ég tvær mismunandi enskar þýðingar (aðra þeirra Nexus-ljósritið) og fékk síðan tékkneska öndvegisþýðandann Martinu Kašparová til að lesa yfir. En ég stóð líka í þeirri trú, eins og allir, að Ásgeir hefði enn einhverjar vikur, jafnvel mánuði til stefnu. Þetta gerðist auðvitað alltof hratt. Og það er sláandi og ósanngjarnt.

Vertu sæll, Ásgeir Hrefnuson Ingólfsson. Þú varst góður maður og það er það sem öllu máli skiptir. Þessi þýðing er fyrir þig.

Nótt með Hamlet

(upphaf)

Eftir Vladimir Holan

Á leiðinni frá náttúru að verund
eru veggir í raun ekki velviljaðir
veggir vættir hlandi atgervismanna, veggir blautir
af hráka geldinga í uppreisn gegn andanum, veggir eigi smærri
fyrir það að vera enn óbornir,
veggir sem umlykja og þroska ávextina . . .

Eftirlátssamur þroski Shakespeares
hvetur til yfirgangs. Merkingin,
sem líkt og furða ætti að vera
vígsla, verður með hnignun tímans
(í ljósi mögulegra ummerkja um fjarveru hans)
að okurskatti á sérhverja íbúð
þar sem sviðsleikstjóri hefur gert sig heimakominn.
Fals er hér eina fullvissan. Og áhorfandinn,
sem of snemma hefur skriðið úr fylgsninu eins og dreki heilags Georgs
ornar sér við gallið úr gagnrýnendum . . .
Og þeir sem dirfast að kortleggja þrá
hafa það náðugt, þótt einnig þeir beri
óviðbjargandi skíthælum reiðilega vitni . . .
En náttúran er alltaf tákn
sem, ef það ekki þegir,
afneitar sér. Og karldýrið,
opnarinn sá, kennir til í hljóði því
andinn færist ávallt fram á við
og allt lykst aftur að baki hans . . .

Hann var líka þannig . . . Hamlet!
Hafði misst handlegg og kvöldið
buldi í gegnum tóma frakkaermina
eins og kynfæri blindingja, sneidd af með tónlist . . .
Náttúran blandaði skömm okkar á borginni
við steinkennt hland upprifins mosa
á gullnum hátindi færninnar
og beið uns vínlirfan breyttist í fiðrildi
en til einskis,
því hann hafði óbeit á víni alla tíð
síðan þorstinn knúði hann til að spretta upp slagæði í hesti
og svelgja blóðið . . .
Svo hann ákvað að hleypa inn flöskuanda
og útiloka leyndarmál sem virtust óopinberuð
og fastur milli sjálfs sín og sjálfs sín
mælti hann fyrir hyldýpisins hönd.
Síðan þá mælti hann einungis úr djúpum þess
jafnvel þegar um var að ræða tiltekinn kvendýrling
sem átti ekkert eftir nema sársaukann
af minningunni um elskhuga úr fyrndinni
sársauka svo lítinn að auðveldlega mætti dylja hann
innan í rotinni tönn . . .

Litlu skiptir
hvort það var slefandi hvæsið úr skoltum sofandi krybba,
smiðir miðnæturbrúa,
hin skapandi skepna sem reisti sér tvö grafhýsi,
vofur sem taka laun fyrir spádóma.
Einungis listin átti sér engar málsbætur . . .
og lífið heimtaði,
heimtaði að við hættum á að lifa af
þótt við kynnum einnig að þrá dauðann . . .

Það var ekkert svar . . . jafnvel ekki í undirvitundinni . . .
en þarna var hann, Hamlet, sem líkt og Mozart-staupari
sneri Ölpunum á hvolf til að stilla valtri flösku
á brakandi tröppu óttans við dauðann,
svo nálægur sjálfum sér að hann rúmaði
allan ódauðleika . . .
og satt er að í návist hans
gat hnífurinn sem vofði yfir kindinni
ekkert skorið
og bráðið pjátur úr gömlum skírnarfontum
tók á sig frummynd sína að nýju.
Kvíðinn heldur velli. Hann bjó um sig í eilífðinni
og átti að græða sár hennar. Hann var í gröf föðurins
og átti að vera sonur barnanna . . .
Hann var með heilögum anda tónlistarinnar
og átti að komast af á tekjum skækju
eða verði hunds.

Ó, ekki að hann væri alvitur, því honum var vel ljóst
að þegar sjálfhverfan étur yfir sig
kastar hún ekki upp heldur meltir og byrjar aftur –
ekki var hann vitur eins og viðarstólpi
innan um steinsúlur –
ekki skalf hann af viðbjóði frammi fyrir
gólfinu forna, máluðu með tíðablóði –
ekki var það af nísku sem hann hugleiddi hinstu rök
og lifði í grafhýsi Atreifs konungs
þar sem fjárhirslan leiddi beinustu leið í beinahúsið –
honum stóð á sama um hvort
boginn háls Alexanders mikla
hefði slétt úr einhverju í mannkynssögunni –
nei nei, en ég sé hann enn senda þeim ygglibrún
sem líta á öll leyndarmál sem tómarúm
þangað sem þeir varpa öllum sínum geldingaofsa . . . 

Hver sá sem gefur er samt sem áður nískur . . .
en þó erum við vantrúuð og væntum ávallt einhvers,
og ef til vill væntir fólk ávallt einhvers
því það skortir trú . . . það er upplýst,
en ljómar ei, það er blóðlítið
þótt fyrir því sé ekkert til nema blóði sé úthellt
það er brottrækt en þó ekki enn bannfært
það er forvitið en á eftir að finna spegilinn
þar sem Helena-Helena
skoðaði sig að neðan-neðan
og svo heyrnarlaust að það vill heyra
rödd Jesú Krists á hljómplötu . . .

Og þó er allt, allt hér
kraftaverk aðeins eitt sinn:
aðeins eitt sinn blóð Abels
sem átti að binda enda á öll stríð,
aðeins eitt sinn óendurtakanlegt óminni bernskunnar
aðeins eitt sinn æska og aðeins eitt sinn söngur,
aðeins eitt sinn ást sem samstundis brást,
aðeins eitt sinn allt gegn arfgengi og vana,
aðeins eitt sinn leyst um umsamda hnúta og þar með frelsun,
og aðeins eitt sinn kjarni listarinnar
aðeins eitt sinn allt gegn prísundinni,
nema Guði sjálfum skyldi þóknast að reisa sér hús
á jörðu hér . . .