Mér gekk alveg glimrandi vel að sniðganga Júróvisjon þetta árið, eins og reyndar öll önnur ár. Ef út í það er farið, þá fæ ég aldrei jafn sterklega á tilfinninguna að ég sé frá annarri plánetu en þegar þessi söngvakeppni stendur yfir. Jú, nema kannski þegar Ísland keppti á HM í fótbolta. Eða í þetta eina skipti sem ég fór að horfa á farsa í Borgarleikhúsinu. Allur stóri salurinn liggjandi í hláturkrampa nema ég, fríkið.
Í fyrra var ég eitt sinn staddur á tónleikum í Berlín til minningar um palestínska bókmenntafræðinginn Edward Said. Meðal þeirra sem komu fram var bandaríski rithöfundurinn Teju Cole, sem tókst að hnýta saman hugvekju um nokkur óskild eða fjarskyld efni, meðal annars ástandið í Palestínu á okkar tímum. Í skáldsögu sinni Open City leggur Cole einni af persónum sínum, sem er arabi, eftirfarandi orð í munn: “in my opinion, the Palestinian question is the central question of our time.”
Mér verður stundum hugsað til þessara orða. Kannski vegna þess að manni virðist stundum að Palestínumenn hljóti að vera undirokaðasta fólk á gervallri jarðkringlunni. Kannski nokkurs konar homo sacer, á tískuorðfæri nútíma þeóríu. Brútalt hernám áratugum saman. Stríðsglæpir. Þjóðernishreinsun. Aðskilnaðarstefna. Stöðug afmennskun, eins og þeir séu einhvers lags hvimleið meindýr sem halda þurfi í skefjum, kannski eins og minkar eða tófur í íslenskum sveitum. Allir samfélagsinnviðir í molum. Ekki einu sinni hreint drykkjarvatn. Kúgarar þeirra hafa allt valdið, en þeir sjálfir hafa ekkert af því. Hermenn með alvæpni að áreita lítil börn á leið í skólann, taka af þeim leikföngin, hræða úr þeim líftóruna. Leyniskyttur að skjóta börn . . .
Maður getur náttúrlega orðið bilaður af að hugsa um þetta.
En Íslendingar bera semsagt sterkar tilfinningar til þessarar keppni, af ástæðum sem mér eru huldar. Tilfinningar sem gætu hafa ruglað dómgreind margra í stóra Hatara-málinu, sem allir hafa skoðun á.
Hvað fleira er hægt að segja um það allt saman? Að sjálfsögðu er ég enginn sérfræðingur í þeim efnum, en þegar hlutaðeigandi aðilar tjá sig þá reyni ég að hlusta. Samtökin Boycott, Divestment and Sanctions (sniðganga, fjárlosun og þvingunaraðgerðir), sem eftir því er ég best veit tala fyrir hönd meirihluta Palestínumanna, höfðu óskað eftir því að keppnin yrði sniðgengin. Samtökin Ísland-Palestína einnig. Fólk sem er sjálft af palestínsku bergi brotið og aðgerðasinnar sem hafa helgað sig þessum málstað árum saman og eru þaulkunnugir þessu málefni. Og það sem leiðandi samtök á þessu sviði segja dugar mér. Ekki er ég svo hrokafullur, sitjandi í mínum vestrænu makindum, að þykjast vita betur en þau hvað ber að gera. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir á uppátækinu meðal Palestínumanna sjálfra, bara eins og það eru skiptar skoðanir á öllu, alls staðar. En ef ég, sem Vesturlandabúi, vil sýna stuðning og gagnast málstaðnum, er þá ekki eðlilegast að afstaða mín taki mið af afstöðu meirihluta Palestínumanna í mynd þeirra stærstu fjöldahreyfinga? Ef þeir eru ósáttir um aðferðir, hlýtur það þá ekki að teljast þeirra innanbúðarmál? Hin ýmsu sjónarmið þar á bæ kunna að vera góð og gild, en hvernig á ég, sem utanbúðarmaður, að geta byggt afstöðu mína á þeim ef ég veit ekki hvort þau sjónarmið hafa pólitískt bakland meðal þeirra sem ég vil hjálpa? Er það mitt að dæma um hver þeirra hefur rétt fyrir sér? Hví skyldi ég telja mig í rétti til að velja úr ólíkum sjónarmiðum Palestínufólks þau sem falla best að mínum eigin tilfinningum og heimsmynd, eins og ég sé úti í búð að ákveða hvað mig langar að hafa í matinn? Nei, það er ekki pólitík sem mér hugnast.
Auk þess hafa áðurnefnd samtök alltaf verið alveg skýr á því að gagnrýni þeirra og þrýstingur beinist ekki að Ísraelsmönnum, hvorki sem samfélagshópi né einstaklingum, hvað þá gyðingum, heldur að framferði Ísraelsríkis. Að ísraelskum stjórnvöldum, sem eins og öllum má ljóst vera, eru með þeim hægrisinnuðustu á byggðu bóli nú til dags. Að gefa annað í skyn um okkur sem vorum og erum fylgjandi sniðgöngu – eins og ég las á a.m.k. einu bloggi í gær – er afar, afar billegt. Að sjálfsögðu vita allir að Netanyahu nýtur ekki 100% stuðnings innanlands. En hann og hans líkar eru samt við völd þar, og að halda annað en að þeir blóðmjólki alla svona viðburði til að þvo sig af glæpsamlegum gjörðum sínum er barnaskapur og fáfræði.
(Annars er mér til efs að nokkur sem ég þekki haldi í alvöru að fullkominn einhugur ríki um nokkurn hlut meðal svo fjölmenns hóps sem heil þjóð er. Til hægðarauka tekur maður stundum svo til orða að einhver þjóð, t.d. Íslendingar, sé svona eða hinsegin og á þá við meirihluta þeirra. Að hnýta í þetta finnst mér hálfgerður orðhengilsháttur.)
Viðbrögð Íslendinga við uppákomunni með fánann virðast almennt lýsa miklum “bæði-eiga-kökuna-og-borða-hana” hugsunarhætti. Og sjálfsánægjan, maður minn. Margir þeirra eflaust vel meinandi og finna til hluttekningar með hinum kúguðu. En vilja, þegar allt kemur til alls, samt fá sitt Júróvisjón og tína til hvað sem þeir finna því til réttlætingar. Ég efast heldur ekki um að Hatara-hópnum hafi gengið gott eitt til og finnst í raun óþarflega hart að þeim vegið í umræðunni. Ábyrgðin liggur frekar hjá Rúv, sem bauðst að taka málefnalega prinsippafstöðu í þessu máli en hafnaði því, rétt eins og hliðstæðar stofnanir annarra Evrópuríkja. Stundum þarf einhver að taka af skarið, ganga á undan með góðu fordæmi.
En hvað um það; annað og sínu verra en þessi kjánalega söngvakeppni er að þýska þingið, Bundestag, hefur nú formlega komist að þeirri niðurstöðu að BDS-hreyfingin sé and-semitísk. Ákvörðun sem er tekin í spennuþrungnu andrúmslofti vaxandi gyðingaandúðar þar í landi, sem er raunverulegt vandamál. Að fylgjast með umræðunni um þennan málaflokk í Þýskalandi getur verið ótrúlega frústrerandi. Hvergi nema þar fær hann kristilega íhaldsmenn og róttæka vinstrisinna til að fallast í faðma. Stundum hlusta ég á þætti í hlaðvarpinu Freies Sender Kombinat, haldið úti af róttæklingum í Hamborg, en verð að viðurkenna að stundum kemst ég ekki í gegnum heila útsendingu. Því hvað ætli þeir hafi að segja um þessi mál? Að öll viðleitni til að setja einhvern þrýsting á Ísraelsríki sé umsvifalaust afgreidd sem “kerfisbundinn (þ. struktureller) and-semítismi”, heyrist mér. Hugurinn alveg kirfilega lokaður. Og almennt fá samstöðuviðburðir til stuðnings Palestínu ekki inni í rýmum vinstrimanna í Berlín, eins og í fyrra þegar skemmtistaðurinn ://about blank úthýsti DJs for Palestine. Af því að helförin. Antideutsche vitleysingar.
Einnig fylgi ég nokkrum antifa-síðum á Twitter og Facebook. Ekki er það skárra. Einhvern tíma á síðasta ári átti frænka Ahed Tamimi, sem ég man því miður ekki hvað heitir, að tala á einhverjum málfundi í Berlín. Þá voru þau boð látin út ganga á þessum síðum að hún væri – getiði hvað – andsemítisti. Með öðrum orðum var antifa sigað á hana. Og gott ef Ahed og öll hennar fjölskylda átti ekki bara að vera örgustu gyðingahatarar.
Aftur á móti á ég líka vini sem eru þýskir gyðingar og þeir hafa heilbrigða, vinstrisinnaða skoðun: þeim finnst þetta fáránlegt.
Einhvern tímann verða þýskir vinstrimenn að opna augun og sjá það sem allir aðrir eiga svo auðvelt með að sjá, þótt það sé mjög ólíklegt í tíðaranda nútímans. Og einhvern tímann verða Íslendingar (lesist: meirihluti Íslendinga) að temja sér hógværð gagnvart alþjóðasamfélaginu.