Til hvers eru rithöfundar?

Menn velja sér misháleit viðfangsefni í lífinu. Til dæmis rithöfundurinn sem komst í fréttirnar um daginn því honum fannst sér samboðið að “taka Guðberg á þetta” (kannski af því að el maestro hefur látið lítið að sér kveða uppá síðkastið) með því að dissa MeToo í riti. Sem honum er auðvitað frjálst að gera í lýðræðisríkinu Íslandi, þótt deila megi um hvort slíkt uppátæki geti talist smekklegt, stórmannlegt, háttvíst eða göfugt, en ef til vill er viðkomandi bara alveg sama um það. Og sem öðrum er frjálst að gagnrýna, enda var það dálítið gert. Samkvæmt minni upplifun voru viðbrögðin þó fremur tempruð og fyrirferðarlítil. Fjölmiðlar höfðu birt nokkur sýnishorn úr hinni án efa gagnmerku ritsmíð; sýnishornin tala sínu máli og ekkert því til fyrirstöðu að taka afstöðu til þeirra sem slíkra, eins og maður tekur afstöðu til annarra stuttra texta, til dæmis stakra ljóða. Með hliðsjón af ummælum höfundarins sjálfs í viðtölum. Ásamt því að allar viðtökur allra texta eru auðvitað líka litaðar, upp að einhverju marki, af fyrri reynslu því við lifum jú ekki í neinu sögulegu tómarúmi eða eilífri nútíð.

En nema hvað, þá ruddust nokkrir vinir umrædds höfundar fram á ritvöllinn honum til varnar, grenjandi og bítandi í skjaldarrendur og mátti helst á þeim skilja að nú þyrfti enn á ný að búast til varnar gegn hinum voðalega rétttrúnaðarmúgi með kyndlana og heykvíslarnar á lofti, sem ávallt sprettur upp í kringum alla sem voga sér hugsa öðruvísi og sætir færis að brenna þá á báli. Meðal annars var því haldið fram að dissið væri í raun alls ekki diss heldur bara grín – reynið að útskýra muninn á því fyrir andfemínistunum í kommentakerfunum. Í kaupbæti fylgdu ýmsar stórkarlalegar yfirlýsingar um hvað það er að vera rithöfundur/listamaður og tilgang slíks starfa. Á bak við mál þeirra allra fannst mér glitta í leifarnar af gamalli hugmyndafræði um “rithöfundinn” sem einhvers konar Nietzscheíska fígúru, handan góðs og ills, sem hefur það helsta missjón í þessu jarðlífi að hrella smáborgarana, fletta ofan af hræsni þeirra og þar fram eftir götunum. Með tilgerðarlegri fullvissu um getu sína til þess að skapa fjarlægð frá samfélaginu og dvelja í þessari fjarlægð sem einhvers konar upplýst og gegnsætt sjálf.

Þrátt fyrir að vera í grunninn aristókratísk kann sú hugmyndafræði að hafa haft nokkuð prógressíft inntak á 19. öld, til dæmis hjá Baudelaire og fleirum. En sé hún tekin upp ósögulega, ódíalektískt, þá getur hún á 21. öld hæglega verið smáborgaralegust af öllu. Stór hluti af henni er andúð á hjarðhugsun og -hegðun, sem er auðvitað gott og blessað. Frjáls hugsun er jú eitt það dýrmætasta sem hver maður getur átt. En það er hægt að vera með svo mikið ofnæmi fyrir meintri hjarðhugsun að manni sýnist allar fjöldahreyfingar bara vera eintómar heimskar, jarmandi hjarðir. Annað en snillingurinn, sem sér gegnum holt og hæðir. Og svo allt í einu – úbbs – er maður alveg óvart farinn að standa vörð um óbreytt ástand.

Í öllu falli tókst þessum herramönnum að sannfæra mig um að ef það að vera “rithöfundur” merkir að vera svona eins og þeir, þá hef ég ekki áhuga á að gerast einn slíkur. Hins vegar vil ég gjarnan framleiða allskonar texta, til dæmis ljóð, sögur og ritgerðir. En líklega er það ekki alveg sami hluturinn og að vera “rithöfundur”.

Og síðan fóru allir bara að tala um eitthvað annað. Og þannig leið enn einn dagurinn í stóra kleinuboðinu úti á Norður-Atlantshafi.

Andans maðurinn heilagur Antóníus, umsetinn djöflum. Hieronymus Bosch, Museu Nacional de Arte Antiga, Lissabon.